Tilgangur

Með þessari yfirlýsingu um stjórnarhætti Summu Rekstrarfélags hf. er félagið að fylgja leiðbeiningum um „stjórnarhætti fyrirtækja“ sem gefnar voru út í mars 2012 af Viðskiptaráði Íslands í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og NASDAQ Iceland. Leiðbeiningarnar fjalla um innleiðingu á ákveðnum vinnureglum umfram það sem kveðið er á um í lögum. Þeim er meðal annar ætlað að styrkja innviði fyrirtækja og auka gagnsæi.

Stjórnarháttayfirlýsing Summu Rekstarfélags hf. er aðgengileg á heimasíðu félagsins,www.summa.is.

Lög og reglur

Summa Rekstrarfélag hf. er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki skv. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lögum um verðbréfasjóði nr. 128/2011. Félagið er hlutafélag og um starfsemi þess gilda lög um hlutafélög nr. 2/1995. Félagið sætir eftirliti skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Um starfsemi félagsins gilda jafnframt leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins, samþykktir félagsins og innri reglur þess.

Frá skipan núverandi stjórnar hefur félagið fylgt eftir lögum, samþykktum, reglum, tilmælum ásamt þeim starfsreglum sem stjórn hefur sett og hefur í þeim efnum m.a. verið stuðst við framangreinda stjórnarhætti. Innri reglur félagsins hafa verið endurskoðaðar af stjórn til að endurspegla núverandi starfsemi félagsins og breytt starfsumhverfi.

Summa Rekstrarfélag hf. fer eftir framangreindum leiðbeiningum um stjórnarhætti að frátöldum eftirfarandi þáttum:

  1. Ekki hafa verið sett skriflega sérstök viðmið um siðferði og stefnu um samfélagslega ábyrgð, en þó eru ítarlegar reglur í starfsreglum stjórnar og innri reglum um óhæði stjórnarmanna og hagsmunaárekstra, meðferð trúnaðarupplýsinga, trúnað við félagið og eftirfylgni við lög;
  2. Ekki hafa verið settar á fót undirnefndir stjórnar, einkum vegna smæðar félagsins.

Starfsemi félagsins

Summa Rekstrarfélag hf. sérhæfir sig á sviði eignastýringar fyrir fagfjárfesta og annast rekstur og stýringu verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða með áherslu á sérhæfðar fjárfestinga (e. alternative investments). Hlutverk Summu Rekstrarfélags hf. er að stýra eignum á faglegan hátt þar sem hagsmunir viðskiptavina eru ávallt í fyrirrúmi. Ytri endurskoðun var framkvæmd af Ernst & Young ehf.

Félagið var stofnað árið 2000 og nefndist áður Rekstrarfélag Byrs hf. Starfsmenn félagsins voru 4 í árslok 2016.

Hluthafar

Í lok árs 2016 voru eigendur Summu Rekstrarfélags hf. Íslandsbanki hf. með 25% hlut og Megind, sem er í eigu starfsmanna félagsins, með 75% hlut.

Útvistun verkefna

Útvistunarsamningur eru gerðir í samræmi við viðeigandi tilmæli og reglur Fjármálaeftirlitsins. Samningarnir eru jafnframt bornir undir Fjármálaeftirlitið í þeim tilvikum sem slíkt er skylt.

Regluvörslu er útvistað til Lögmanna Lækjargötu og innri endurskoðun er útvistað til KPMG samanber heimild í 16. grein laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Vörslufyrirtækið T-plús annast bókhald sjóðsdeilda, útreikning á innlausnarvirði og viðheldur skrám yfir eigendur hlutdeildarskírteina. T-plús tekur jafnframt að sér vörslu eigna sjóða í rekstri hjá Summu Rekstrarfélagi hf. í samræmi við skyldur vörslufyrirtækja samkvæmt c-lið II. kafla laga nr. 128/2011.

VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, hefur milligöngu um sölu og innlausn hlutdeildarskírteina, markaðssetningu, ráðgjöf og aðra þjónustu við eigendur hlutdeildarskírteinishafa.

Þrátt fyrir útvistun helst ábyrgð á framkvæmd þessara þátta óskoruð hjá félaginu. Það er mat stjórnar og stjórnenda að þetta fyrirkomulag sé félaginu hagfellt m.t.t. stærðar þess og reynslu og sérhæfingar þeirra sem útvistað er til.

Gildi félagsins, siðferðisviðmið og stefna um samfélagslega ábyrgð

Áherslur Summu Rekstrarfélags hf. eru að bjóða virðisaukandi, hugkvæma, agaða og trausta þjónustu til handa viðskiptavinum félagsins.

Þá leggur Summa mikla áherslu á áhættustýringu; fyrir félagið sjálft, fyrir eignasöfn sem það stýrir svo og fyrir viðskiptavini sína.

Félagið leggur mikla áherslu á virkt innra eftirlit og ábyrga áhættustýringu. Markmiðið er að starfsemi félagsins sé í samræmi við þær reglur sem um starfsemi þess gilda og áhætta félagsins sé viðunandi. Skilvirk eftirlits- og upplýsingakerfi eru því mikilvæg, sérstaklega fyrir sjóði í rekstri félagsins.

Stjórn og framkvæmdastjórn Summu Rekstrarfélags hf.

Stjórn Summu Rekstrarfélags hf. skipa þrír aðalmenn og tveir varamenn sem eru allir kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn.

Stjórn félagsins ber meginábyrgð á rekstri þess og fer með æðsta vald í málefnum þess á milli hluthafafunda. Stjórnin hefur lögbundnu hlutverki að gegna sem henni ber sjálfri að annast nema heimild sé veitt í lögum til að framselja valdið með umboði. Stjórn markar einnig félaginu stefnu og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Hlutverk stjórnar er skilgreint ítarlegar í starfsreglum stjórnar og samþykktum félagsins.

Stjórnarfundir eru að jafnaði haldnir mánaðarlega. Auk stjórnar situr framkvæmdastjóri félagsins fundina utan að jafnaði einn fund á ári sem haldinn er án hans. Núverandi stjórn félagins var kjörin 7. mars. Á árinu 2016 voru haldnir 11 stjórnarfundir. Allir fundir stjórnarinnar voru ákvörðunarbærir og mættu allir stjórnarmenn á alla fundi.

Árlega metur stjórn störf sín og gerir tillögur að úrbótum. Framkvæmdastjóri er ekki viðstaddur matið og stjórnarformaður víkur af fundi þegar stjórnarmenn leggja mat á frammistöðu hans. Matið í heild er svo tekið saman, tillögum stjórnar um úrbætur úthlutað til ábyrgðaraðila og verklokatími skilgreindur fyrir hvern þátt um sig. Stjórnin hefur engar undirnefndir skipað, en það kemur til vegna smæðar félagsins.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tilkynnt tafarlaust um ráðstöfunina.

Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald og fjárreiður séu í samræmi við lög og góðar venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri. Hann fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum þess sem ekki eru falin öðrum skv. lögum nr. 161/2002 eða samþykktum félagsins. Stjórn hefur sett framkvæmdastjóra ítarlegt erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um skyldur hans.

Aðalmenn í stjórn og framkvæmdastjóri

Guðmundur Þ. Guðmundsson, formaður

Guðmundur Þ. Guðmundsson fæddur 1966 lauk prófi í vélaverkfræði frá Háskola Íslands 1990 og meistaraprófi í verkfræði frá DTU í Kaupmannahöfn árið 1993. Guðmundur lauk prófi í verðbréfaviðskiptum árið 1998 og er CFA®chartholder síðan í júní 2006. Þá lauk Guðumundur B.Sc. prófi í tölvunarfræði frá Háskóla Reykjavíkur árið 2014.

Guðmundur starfaði samfleytt í 15 ár í fjármálageiranum, síðast sem framkvæmdastjóri hjá Arion banka árið 2010. Sjálfstætt starfandi ráðgjafi í samstarfi við Advance ehf. frá 2010 til 2015, fjármálastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu AZAZO hf. frá október 2015. Óháður stjórnarmaður og var kjörinn í stjórn Summu þann 7. mars 2016.KPMG

Hildur Árnadóttir

Hildur Árnadóttir fædd 1966, er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1991og lauk prófi sem löggiltur endurskoðandi 1995. Sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá eigin fyrirtæki, Argyron ehf. Óháður stjórnarmaður og var kjörin í stjórn Summu 7. mars 2016.

Hildur var starfsmaður og síðar meðeigandi hjá KPMG hf. 1990-2004, fjármálastjóri og ráðgjafi hjá Bakkavör Group hf. 2004-2014, forstöðumaður fjárstýringar hjá Íslandsbanka 2014-2015. Hildur hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og situr nú í endurskoðunarnefnd HS Orku hf. og endurskoðunarráði.

Þórunn Helga Þórðardóttir

Þórunn Helga Þórðardóttir fædd 1984 útskrifaðist með meistaragráðu frá lagadeild Háskólans í Reykjavík í janúar 2010 og hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 2012. Þórunn útskrifaðist auk þess með LL.M-gráðu frá lagadeild Columbia University vorið 2013.  Óháður stjórnarmaður og var kjörin í stjórn Summu 7. mars 2016.

Þórunn hefur starfað á lögfræðisviði Kaupþings ehf. frá 2009.

Sigurgeir Tryggvason, framkvæmdastjóri

Sigurgeir Tryggvason er fæddur 1966 og hefur 15 ára starfsreynslu úr fjármálageiranum. Sigurgeir var forstöðumaður fasteigna- og verkefnafjármögnunar hjá Kaupþingi til 5 ára og sá síðar um verkefni á sviði fyrirtækjaráðgjafar. Sigurgeir var yfirmaður verkefnafjármögnunar hjá Norðuráli 2009 til 2012 og sérfræðingur í lánagreiningu hjá áhættustýringu Arion banka frá 2012 þar til hann réðst til Summu Rekstrarfélags 2013. Sigurgeir er með þrjár meistaragráður; í stjórnun fjölþjóðlegra fyrirtækja frá Thunderbird, School of Global Management, MBA frá W.P. Carey, Arizona State University og í raforkuverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe (TU). Þá er hann rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands.

Dómsmál

Félagið hefur ekki gerst brotlegt um refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfasjóði eða löggjöf um hlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, né heldur á félagið í dómsmáli eða öðrum ágreiningi við viðskiptamenn eða aðra.

Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar

Fundargerðir stjórnar Summu Rekstrarfélags hf eru aðgengilegar hluthöfum í húsakynnum félagsins að Tjarnargötu 4, 101 Reykjavík. Starfsreglur stjórnar má einnig nálgast í húsakynnum félagsins.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum hluthafa þess sem hittast á hluthafafundum að minnsta kosti einu sinni á ári.

Á aðalfundum er farið yfir starfsemi félagins og þar er hluthöfum heimilt að tjá sig um málefni félagsins og leggja fram spurningar til stjórnar og framkvæmdastjóra.

2. febrúar 2017

Stjórn Summu Rekstrarfélags hf.