Öllum viðskiptum fylgir áhætta

Áhætta sem fylgir viðskiptum með fjármálagerninga er iðulega mikil því búast má við því að virði verðbréfa og annarra fjármálagerninga, þ.m.t. hluta- og skuldabréfa, sveiflist.  Slíkar sveiflur geta leitt til þess að virði sjóða eða þeirra eigna sem eru í eignastýringu eða veitt hefur verið fjárfestingarráðgjöf varðandi lækki.

Sér í lagi er mögulegt að verð lækki umfram upphaflegt kaupverð og verðbreytingar í fortíð eru engin trygging fyrir verðbreytingum í framtíð. Því er ekki hægt að tryggja að hægt verði að endurheimta upphaflegan höfuðstól né er einhver lágmarksávöxtun eða -arður tryggður af fjárfestingum.

Allt slíkt tap á fjárfestingum að viðbættum kostnaði við kaup og sölu og öðrum kostnaði sem til fellur, s.s. umsýslu- og ráðgjafaþóknanir, er borið af fjárfestum. Fjárfestar ættu því að kynna sér vel hina ýmsu markaði og afla sér almennra upplýsinga um þá kosti sem í boði eru áður en fjárfest er. Þá skulu fjarfestar huga vel að því hvort tilteknir fjármálagerningar henta þeim með tilliti fjárhagslegrar og skattalegrar stöðu.

Kunnátta og þekking

Af framangreindu leiðir að fjárfestar ættu ekki að fjárfesta í neinni fjármálaafurð án þess að hafa til að bera nægja þekkingu og reynslu til að meta helstu eiginleika hennar. Sér í lagi er mikilvægt að fjárfestir geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir fjárfestingunni og hversu líklegt er að áhrif hennar á fjárhagsstöðu verði neikvæð til lengri eða skemmri tíma. Þá ber að hafa í huga til hve langs tíma fjárfestingin er, hverjir möguleikarnir til að vinda ofan fjárfestingu eru, t.d. til að takmarka tap, hvernig viðskipti með eignina fara fram og aðra ráðandi skilmála.

Áhættuþættir

Þeir þættir sem geta haft áhrif á eignaverð eru gjarnan nefndir áhættuþættir. Framangreind lýsing jafngildir því að fjárfestir kunni ekki aðeins skil á þeim tækifærum sem í fjárfestingunni felast heldur kynni sér einnig þá helstu áhættuþætti sem henni fylgja..

Hér til hliðar má finna upplýsingar um ýmsa áhættuþætti sem fylgja fjárfestingum almennt og eru viðskiptavinir hvattir til að kynna sér þá áhættuþætti – bæði hvað varðar hugsanlegar nýjar fjárfestingar en einnig núverandi stöðu eigna- og skuldbindinga. Ekki er rétt að ráðast í fjárfestingar sem skipta fjárhag viðskiptavinar máli nema að undangenginni greiningu á þeim áhættuþáttum sem hverjum fjárfestingarkosti fylgja og hvernig þeir áhættuþættir tvinnast saman við heildarfjárhag.

Hafa verður í huga að þessi upptalning áhættuþátta er ekki tæmandi og þá er einstökum áhættuþáttum einungis lýst í allra helstu atriðum og án allrar ábyrgðar.