Tegundir sjóða

Summa Rekstrarfélag hefur lögum samkvæmt heimild til að reka verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sjá nánar umfjöllun um sjóði.

Tilgangur verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða er að veita fé viðtöku frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar en fagfjárfestasjóðir standa einungis fagfjárfestum til boða. Hornsteinn hvers sjóðs er fjárfestingastefna hans en sjóðstjóri kaupir og selur eignir innan þeirra heimilda sem hún veitir. Það svigrúm sem fjárfestingarstefnan veitir hvað eignaflokka og hlutföll þeirra á milli getur verið mjög ólíkt frá sjóði til sjóðs. Þá er fjárfestarvernd og lagaumgjörð sjóðanna misjöfn.

Fjárfesting í sjóðum

Fjárfestingar í sjóðum eru jafnan hugsaðar til lengri tíma en það ræðst þó að einhverju leyti af eðli sjóðanna og kostnaði við kaup og innlausn.

Slíkar fjárfestingar geta verið góður kostur fyrir marga fjárfesta þar sem með því gefst oft tækifæri til að fjárfesta í dreifðu eignasafni án mikillar umsýslu. Sökum þess að í sjóði er eignasafnið yfirleitt dreifðara minnkar einnig vægi sumra áhættuþátta, s.s. mótaðilaáhættu, samanborið við að einungis væri fjárfest í fáeinum verðbréfum. Þá hafa sjóðir tækifæri til nákvæmari greininga og virkari stýringar en margir fjárfestar. Hins vegar ber að hafa í huga að áhættan minnkar ekki öllu tilliti, t.d. ber sjóður sem fjárfestir aðeins í löngum skuldabréfum svipaða vaxtaáhættu í heild og hvert og eitt verðbréf í sjóðnum.

Kaup í sjóðum eru því áhættufjárfesting, háð mismunandi áhættuþáttum og geta leitt til taps fyrir fjárfestinn.

Áhættusnið einstakra sjóða

Þótt almennt megi fullyrða að sjóðir séu áhættuminni en einstakar fjárfestingar af sama tagi þá fylgir sjóðunum mismikil áhætta, þ.e. áhættusnið sjóða er mjög mismunandi. Til dæmis má nefna að hlutabréfasjóðir eru alla jafna taldi áhættusamari en skuldabréfasjóðir. Á móti kemur að sumir sjóðir, einkum fagfjárfestasjóðir, eru ekki ætlaðir til áhættudreifingar heldur jafnvel stofnaðir í kringum staka fjárfestingu sem getur verið mjög áhættusöm.

Fjárfestingarstefna hvers og eins sjóðs er stór hluti af áhættusniði sjóðsins en er þó ekki tæmandi lýsing því útfærsla hennar getur leitt til mismunandi niðurstöðu hvað varðar áhættu, einkum ef fjárfestingarstefnan er rúm. Þá getur undir óvenjulegum kringumstæðum, t.d. við höft á gjaldeyrisviðskiptum, reynst ómögulegt að framfylgja þeirri fjárfestingarstefnu sem ætlunin var í upphafi. Jafnframt geta óvæntir atburðir og aðstæður markaði, s.s. afskráningar, samrunar fyrirtækja, greiðslustöðvanir og annað leitt til þess að ógerlegt reynist að fylgja fjárfestingarstefnu til skemmri eða lengri tíma. Því til viðbótar getur eitthvað farið úrskeiðis við umsýslu sjóðsins, túlkun á lagaumgjörð verið röng og ýmislegt annað orðið til þess farið er í bága við fjárfestingarstefnu sjóðsins þótt kapp sé lagt á að koma í veg fyrir slíkt.

Sértæk áhætta við fjárfestingu í sjóðum

Fyrir utan almennt áhættusnið sjóða þá fylgir fjárfestingu í sjóðum ýmis sértæk áhætta. Slik áhætta getur til dæmis fylgt innlausn í sjóðnum því innlausnir geta sætt takmörkunum og þá er einatt heimilt að fresta innlausn við sérstakar aðstæður. Frestun gæti til dæmis komið til vegna tímabundinnar lokunar kauphallar þannig að ekki reynist unnt að sannreyna innlausnarvirðið. Einnig gæti sjóður staðið frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki væri unnt að mæta þeim nema með sölu eigna á lengri tíma.

Kjósi fjárfestir fremur að selja hlut sinn í sjóðnum beint í stað innlausnar er ekki víst að slíkt sé hægt og jafnvel þótt það sé hægt geta afföll orðið veruleg.  Einnig getur innlausnarvirði sjóðs á einhverjum tíma verið minna en raunvirði hans. Slíkt kemur einkum upp ef eignir sjóðsins eru óskráðar eða ef viðskipti með þær á markaði eru stopul og rýr. Þá getur ýmis lagaumgjörð sjóðanna breyst eða verið mismunandi á milli landa og leitt til þess að fjárfestar njóti ekki sannvirðis hlutdeildar sinnar.

Árangur sjóðsins innan fjárfestingastefnu getur líka ráðist af gæðum sjóðastýringarinnar og hæfni sjóðstjórans við að koma auga á rétt fjárfestingartækifæri. Láti lykilstarfsmenn af störfum af einhverjum ástæðum getur reynst erfitt að finna jafn hæft starfsfólk til að fara með stjórn sjóðsins. Í því samhengi er rétt að benda á að fjárfestar hafa yfirleitt mjög takmarkaða aðkomu ef einhverja að starfsemi sjóðsins og einstökum ákvörðunum í rekstri hans.