Ýmis áhætta tengd fjárfestingum

Ýmis áhætta fylgir hverri einstakri fjárfestingu, safni þeirra og fjárfestingastefnu í heild. Slík áhætta fylgir hvort sem er í tengslum við verðbréfa-, fjárfestingar- eða fagfjárfestasjóði eða þá sem hluti af annarri þjónustu Summu Rekstrarfélags hf, s.s. eignastýringu fyrir hönd viðskiptavina eða fjárfestingarráðgjafar til handa viðskiptavinum. Fyrir hverja og eina tegund verðbréfa vega hinir aðskiljanlegustu áhættuþættir mismikið. Í því sambandi er vert að ítreka að enginn einhlítur eða altækur mælikvarði er til á áhættu og áhættan er misjöfn eftir því hvaða fjárfestir á hlut, t.d. m.t.t. þeirra skuldbindinga sem fjárfestirinn hefur gengist undir og hvernig eignasafn hans dreifist. Fjárfestar eru því hvattir til þess að kynna sér hverja og eina fjárfestingu vel og þá áhættu og hagnaðarvon sem henni fylgir en einnig skoða þá þætti í víðara samhengi.

Ýmsir áhættuþættir

Hér fyrir neðan er fjallað um ýmsa áhættuþætti sem geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir virði einstakra eigna og eignasafna en sú upptalning er hvorki tæmandi né er einstökum áhættuþáttum lýst í smáatriðum – aðeins er tæpt á allra helstu atriðum og án allrar ábyrgðar.

Á meðal áhættuþátta sem einkenna fjárfestingar eru:

Markaðsáhætta

Virði hlutabréfa og annarra verðbréfa sveiflast iðulega á mörkuðum og verðbreytingar í fortíð hafa takmarkað spágildi fyrir verðbreytingar í framtíð. Slíkar sveiflur geta orðið á stökum verðbréfum eða mörkuðum í heild. Þá getur slík þróun haft áhrif á  atvinnugreinar, landssvæði og tegundir verðbréfa. Markaðsáhætta er mismunandi á milli tegunda verðbréfa, t.d. má almennt segja að hlutabréf fyrirtækja beri meiri markaðsáhættu en ríkisskuldabréf.

Val á verðbréfum

Verðþróun á einstökum verðbréfum getur leitt til taps vegna sérstakra aðstæðna útgefandans eða annarra sértækra eiginleika verðbréfsins þótt markaður með skyld verðbréf fylgi almennt ekki slíkri þróun.

Seljanleikaáhætta

Stærð stöðu í samhengi við virkni markaðar getur komið í veg fyrir að hægt sé að selja verðbréf á sem hagkvæmustum tíma eða án afsláttar frá annars virku markaðsvirði. Þá getur lítil velta og seljanleiki leitt til óskilvirkrar verðmyndunar á markaði.

Útlána- og mótaðilaáhætta

Ómögulegt getur reynst að innheimta þau verðbréf sem fjárfest hefur verið í ef útgefandinn reynist ekki gjaldfær. Þá geta efasemdir um gjaldfærni útgefandans leitt til þess að verð skuldabréfa hans og annarra verðbréfa sem honum tengjast falli í verði.

Vaxtaáhætta

Sum verðbréf, t.d. skuldabréf, eru viðkvæm fyrir vaxtabreytingum, bæði almennt á markaði og þeim sem tengjast útgefandum sérstaklega. Hærri ávöxtunarkrafa lýsir sér almennt í minnkuðu virði verðbréfa og slík áhrif eru alla jafna meiri eftir því sem greiðsluflæði tengt verðbréfinu nær til lengri tíma.

Gjaldmiðlaáhætta

Gjaldmiðlaáhætta er hættan á því að breytingar í gengi gjaldmiðla hafi neikvæð áhrif einstök verðbréf eða flokka verðbréfa. Slík áhætta er til staðar þar sem fjárfestir hefur gert sér væntingar um ávöxtun í einni mynt, t.d. m.t.t. skuldbindinga sinna, en fjárfest í verðbréfum í annarri mynt.

Verðbólguáhætta

Verðbólguáhætta er hættan á því að verðlagsbreytingar leiði til þess að raunávöxtun eigna minnki eða verði jafnvel neikvæð. Einnig getur minni verðbólga en gert var ráð fyrir, jafnvel neikveið, leitt til þess að nafnávöxtun verði minni en ætlað var.

Laga- og reglugerðaráhætta

Laga- og reglugerðaráhætta er hættan á því að viðbætur eða breytingar í lagaumgjörð eða regluverki rýri verðgildi eigna eða hamli á einhvern annan hátt meðferð þeirra og leiði til taps m.v. fyrri stöðu. Þá geta slíkar breytingar haft hamlandi áhrif á þær fjárfestingarleiðir sem í boði eru innan fjárfestingastefnu.

Pólitísk áhætta

Pólitísk áhætta er sú áhætta að hagsmunir eigenda verðbréfa víki fyrir öðrum hagsmunum við pólitískar ákvarðanir og úrlausnir eða ekki sé hugað að þeim hagsmunum.

Efnahagsleg áhætta

Verð á mörkuðum er tengd mismunandi efnahagslegum þáttum sem teygja sig yfir landamæri. Virði verðbréfa er þó alla jafna mest háð því efnahagsumhverfi sem næst stendur útgefanda verðbréfsins. Minni hagkerfi, líkt og hið íslenska, eru oft á tíðum háðari einstökum innri og ytri þáttum en þau hin sem stærri eru. Við það bættist að íslenskt efnahagslíf býr við mikla óvissu um þessar mundir.

Áhætta tengd afleiðum

Afleiður er til af öllu tagi og því ekki hægt að lýsa áhættueiginleikum þeirra á einn hátt. Margar afleiður eru þó þess eðlis að þær eru beint til þess gerðar að einangra eða endurspegla vissa áhættuþætti. Slíkar afleiður má nota til í samhengi við aðrar eignir til að minnka áhættu en þær geta eins verið notaðar til hreinnar stöðutöku. Því geta allir almennir áhættuþættir átt við afleiður en iðulega bætist við áhætta tengd mótaðila í afleiðuviðskiptunum. Þá kann að reynast nauðsynlegt að leggja fram tryggingar til mótaðila, t.d. í formi reiðufjár, þróist markaðsvirði afleiðunnar með neikvæðum hætti á líftíma hennar.

Sértæk áhætta

Ýmis sértæk áhætta getur fylgt skilmálum einstakra verðbréfa. Þannig getur útgefandi t.d. átt rétt til þess að innkalla skuldabréf eða breyta þeim hlutafé o.s.frv. sem getur leitt til taps fyrir fjárfesta.