Grundvöllur áhættustýringar

Grundvöllur áhættustýringar einstakra sjóða er fjárfestingastefnan og vel hönnuð fjárfestingastefna býður einnig upp á markvissari eignastýringu.

Því er mikilvægt að fjárfestingastefnan sé vel ígrunduð og sú áhætta sem fylgir þeirri eignadreifingu sem rúmast innan hennar sé vel skilgreind. Þá er brýnt að markmið og tilgangur fjárfestinganna sé skýr og stefnan sé gagnorð en þó ekki of fræðileg svo hún gagnist fjárfestum. Ganga þarf úr skugga um samræmi sé milli fjárfestingaheimildanna og yfirlýstra markmiða sjóðsins – t.d. hvað varðar áhættusnið sjóðsins. Til að meta árangurinn af stýringu sjóðsins þarf að velja sjóðnum viðmið (e. benchmark) sem hæfir markmiðunum best.

Við hönnun fjárfestingastefnu og bestun hennar m.t.t. til viðmiðs getur reynst vel að prófa fjárfestingastefnuna á sögulegum gögnum með Monte-Carlo-hermunum eða álagsprófum. Með slíkum aðferðum er hægt líka hægt að meta fórnarkostnað takmarkana á fjárfestingastefnuna, s.s. ef einungis má fjárfesta í verðbréfum með ákveðna einkunn eða ef ekki má fjárfesta í ákveðnum atvinnugreinum, landssvæðum o.s.frv.

Strategískar og taktískar fjárfestingastefnur

Viðmiðið ásamt fjárfestingaheimildum gefur hina strategísku hlið eignastýringarinnar, þ.e. í hvaða eignaflokkum skal almennt fjárfesta og í hvaða hlutföllum. Þessir eignaflokkar eru t.d. skuldabréf, hlutabréf, innlán o.s.frv.

Hvaða eignir innan eignaflokkanna skal nákvæmlega velja er hin taktíska hlið eignastýringarinnar sem fer fram hjá sjóðstjóra við stýringu frá degi til dags. Við val á eignum þarf að líta til ýmissa eiginleika þeirra, t.d. vaxtanæmni, atvinnugreinar, landsvæðis, áreiðanleika mótaðila o.s.frv.

Sjóðir geta verið sérsniðnir að þörfum viðskiptavina sem ef til vill setja sér markmið á borð við varðveislu höfuðstóls til langs tíma eða ávöxtun eigna til skamms tíma. Skuldbindingar geta verið hið strategíska viðmið, t.d. í tilfelli lífeyrissjóðs, en einnig getur það verið einhver vísitala, sambland vísitalna eða eitthvað annað.

Markmiðið með taktísku stýringu gæti t.d. verið að ná ávöxtun umfram skuldbindingar, þ.e. auka eigið fé eða auka réttindi í tilfelli lífeyrissjóðs.

Sérgreind eignastýring

Í sérgreindri eignastýringu er fjárfest fyrir hönd viðskiptavinar en í raun gilda öll fyrrgreind meginatriði sem fyrr, áhættustýringin grundvallast á þeirri fjárfestingastefnu sem unnin er í samráði við viðskiptavininn. Í sérgreindri eignastýringu er mikilvægt að áhættusnið viðskiptavinarins sé metið í samráði við hann í tengslum við hönnun fjárfestingastefnunnar. Það felur m.a. í sér að meta hversu mikla áhættu viðskiptavinurinn er tilbúinn til þess að taka með tilliti til vænts ávinnings. Þá þarf líka að liggja ljóst fyrir til hve langs tíma er litið með fjárfestingunum og hversu mikla tapshættu viðskiptavinurinn er tilbúinn að taka. Í sérgreindri eignastýringu er fjárfestingaheimurinn oft stærri en hjá sjóðum þó það sé alls ekki einhlítt. Slíkir viðskiptavinir geta því litið til fjárfestinga í vogunarsjóðum, margvíslegum þróunarverkefnum, ýmsum fagfjárfestasjóðum og jafnvel til hrávara eða eðalmálma.

Viðskiptavinur í sérgreindri stýringu vill hugsanlega verja stöðu sína m.t.t. ákveðinna skuldbindinga, t.d. í tilfelli tryggingafélaga og lífeyrissjóða. Í slíkum tilfellum getur stefnan verið tvískipt. Meginhluti eignanna kann þannig að vera notaður til að verja skuldbindingaáhættuna, t.d. með því að láta líftímann eigna- og skuldbindingamegin standast á. Minnihluti eignanna er hins vegar notaður til að taka áhættu með það að markmiði að ná umframávöxtun – hvar sem hennar er helst vænst. Í slíkum tilfellum er hermun eigna og skuldbindinga mjög mikilvægur þáttur, bæði við hönnun fjárfestingastefnu og daglega stýringu safnsins.