Mælikvarðar sem stjórntæki

Áhættu- og árangursmælingar eru stjórntæki sem sjóðstjóri notar til að fylgjast með stöðu sjóðsins. Þær nýtast við áhættustýringu sjóðsins, val á eignum innan fjárfestingaheimilda og veita fjárfestum mikilvægar upplýsingar. Slíkar mælingar geta varpað ljósi á hvort stefnan, hvort heldur strategísk eða taktísk, er að skila þeim árangri sem vænst var og hvort áhættan er í samræmi við það sem lagt var upp með. Niðurstöðurnar gætu leitt til endurskoðunar fjárfestingastefnunnar.

Ávöxtunarreikningar

Nafnávöxtun er mikilvæg fyrir fjárfesta en ávöxtun umfram viðmið gefur betur til kynna beinan árangur eignastýringarinnar í samhengi við fjárfestingastefnuna. Í þeim tilfellum  þar sem viðmiðið eru skuldbindingar er til dæmis mikilvægast hvort eigið fé er að aukast.

Almennt er þess vænst að aukin áhætta leiði til aukinnar væntrar ávöxtunar. Með áhættuleiðréttri ávöxtun er reynt að meta hvort aukin áhætta skili sér raunverulega í aukinni ávöxtun. Áhættuleiðrétta ávöxtun má t.d. mæla með því að nota VaR-viðmið eða fleira.

Með ávöxtunardeilingu (e. Return Attribution) er hægt að rekja framlag mismunandi þátta til ávöxtunar í heild – hvort sem er m.t.t. nafnávöxtunar eða ávöxtunar umfram viðmið. Ávöxtunardeiling auðveldar yfirsýn sjóðstjóra og fjárfesta og leiðir alla jafnan til markvissari stýringar. Dæmi um þætti sem hægt er að rekja ávöxtun niður á er val á einstökum verðbréfum, yfir- eða undirvigt í atvinnugeirum, endurfjárfestingar, gjaldmiðlahreyfingar o.s.frv. Þá er hægt að meta sérstaklega hvort hin taktíska eignastýring skilar enhverju markverðu til heildarávöxtunar eða hvort betra sé að fjárfesta beint í afurðum sem hafa það að markmiði að elta viðmiðið eins nákvæmlega og hægt er.

Árangurs- og áhættumælikvarðar

Hér fyrir neðan eru nefnd nokkur dæmi um aðferðir sem áhættustýring getur beitt í samráði við sjóðstjóra eða viðskiptavini sjóðsins. Tilgangur listans er að gefa hugmyndir um aðferðir sem beita má í þessu samhengi en nánari útfærsla bíður hvers og eins sjóðs.

  • Fé í húfi (þ.e. VaR – Value-at-Risk) og ýmis afbrigði þess, s.s. IVaRRvaR og CVaR
  • Monte-Carlo hermanir á eignum m.t.t. viðmiðs eða skuldbindinga
  • Álagspróf og sviðsmyndagreining, t.d. byggð á sögulegum gögnum
  • Virkni dreifingar eigna í safni
  • Flökt (e. volatility) safns, t.d. í samanburði við flökt viðmiðs
  • Frávik frá vísitölu (e. tracking error)

Nákvæm útfærsla slíkra mælikvarða og notkun við hönnun fjárfestingastefnu eða stýringu safns er mismunandi milli sjóða. Mælikvarðarnir geta haft mikið upplýsingagildi fyrir fjárfesta, áhættustýringu og eftirlitsaðila.