Um fjárfestingarsjóði

Fjárfestingasjóður gefur út hlutdeildarskírteini og hefur hlotið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn hefur ekki heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Rekstrarfélag gefur út skilríki fyrir eignarréttindum að fjárfestingarsjóði í formi hlutdeildarskírteinis.   Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða eru innlausnarskyld. Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs. Rekstrarfélagi er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðs. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina fjárfestingarsjóða er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðs við innlausn.

Um fjárfestingarheimildir fjárfestingasjóða er nánar getið um í lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði (nr. 128 / 2011).

Munur á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum

Munur er á verðbréfasjóðum (UCITS) og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, þ.e. fjárfestingarsjóðum (Non-UCITS). Hann er einkum sá að verðbréfasjóði er heimilt að markaðssetja innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), þar sem þeir uppfylla tiltekin 16 lágmarksskilyrði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 85/611/EB og hafa því svokallaðan Evrópupassa.

Um verðbréfasjóði gilda að nokkru leyti strangari reglur en um fjárfestingarsjóði. Verðbréfasjóðum er t.a.m. óheimilt að fjármagna sig með lántökum og að skortselja fjármálagerninga, en það er fjárfestingarsjóðum á hinn bóginn heimilt. Fjárfestingarsjóðir eru annaðhvort sjóðir innan EES sem uppfylla ekki skilyrði ofangreindrar tilskipunar eða sjóðir sem staðsettir eru utan EES svæðisins.

Fjárfestingarsjóðir hafa yfirleitt rýmri fjárfestingarheimildir heldur en verðbréfasjóðir og geta því verið áhættumeiri, m.a. vegna lántökuheimilda og heimilda til skortsölu. Verðbréfasjóðum er hins vegar eingöngu heimilt að fjárfesta í þeim fjárfestingarsjóðum sem hafa sambærilegar reglur um lán, lántökur, innlausnarrétt, skortsölu og vörslufyrirtæki.