Um verðbréfasjóði
Verðbréfasjóður gefur út hlutdeildarskírteini sem eru innleysanleg að kröfu eiganda þeirra. Sjóðurinn hefur hlotið staðfestingu Fjármálaeftirlitsins og hefur heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða er nánar getið um í lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði (nr. 128 / 2011).
Hlutdeildarskírteini
Rekstrarfélag gefur út skilríki fyrir eignarréttindum að verðbréfasjóði í formi hlutdeildarskírteinis. Allir sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða einstakri deild hans eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína og eru hlutdeildarskírteinin staðfesting á tilkalli til eignarhlutdeildar. Rekstrarfélagi er ekki skylt að gefa út hlutdeildarskírteini nema eigendur þeirra óski eftir því enda geti þeir hvenær sem er aflað sér staðfestingar á hlutdeild sinni með öðrum hætti. Séu hlutdeildarskírteini gefin út sem rafbréf í verðbréfamiðstöð gilda um útgáfuna lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn eða á safnreikning.
Eignir myndast í verðbréfasjóði með samningi rekstrarfélags við viðskiptavin sem felur því að ávaxta fjármuni sína í tilteknum verðbréfasjóði innan vébanda þess. Sjóðurinn myndast með afhendingu fjármuna viðskiptavinar gegn hlutdeildarskírteinum og samanstendur síðan af þeim eignum sem verða til við ráðstöfun þessara fjármuna til sameiginlegrar fjárfestingar.
Innlausn
Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt reglum verðbréfasjóðsins. Rekstrarfélagi er heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og sameiginlegir hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal ekki vara lengur en nauðsyn krefur og skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og hlutdeildarskírteinishöfum og tekur gildi við sendingu tilkynningar. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess. Er frestun á innlausn lýkur skal tilkynna opnun sjóðs. Vari frestun lengur en fjórar vikur samfellt skal tilkynna opnun sjóða með bréfi til hlutdeildarskírteinishafa eða öðrum sambærilegum hætti svo fljótt sem auðið er.
Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum, deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina. Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða skal reiknað daglega og auglýst opinberlega eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði.
Upplýsingagjöf
Í ársreikningi og árshlutauppgjörum rekstrarfélags skulu sérgreindar upplýsingar um verðbréfasjóð eða sérhverja deild hans. Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu fyrir verðbréfasjóð. Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að fjárfestum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í viðkomandi verðbréfasjóði. Í útdrætti úr útboðslýsingu skal draga fram meginatriði útboðslýsingar.
Rekstrarfélög skulu kunngera fjárfestum í verðbréfasjóði fyrir fram hvaða þóknun þau muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina með hæfilegum fyrirvara.
Á heimasíðu rekstrarfélags og í öðru kynningarefni einstakra sjóða skulu koma fram upplýsingar um gerð sjóðsins, heiti rekstrarfélags, áhættu verðbréfasjóðsins, tilvísun í útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu auk þess sem birta skal upplýsingar um tíu stærstu útgefendur í eignasafni sjóðsins ásamt upplýsingum um hlutfall fjárfestingar í hverjum aðila. Einnig skal birta þar nafn- og raunávöxtun verðbréfasjóðs síðustu þriggja reikningsára. Upplýsingar um stærstu útgefendur sjóðsins skal uppfæra að minnsta kosti á sex vikna fresti.
Áhættustýring
Rekstrarfélög skulu hafa yfir að ráða eftirlitskerfi sem gerir þeim kleift að vakta, meta og stýra áhættu einstakra eigna og eignasafns verðbréfasjóða á hverjum tíma. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um slíkt eftirlitskerfi. Rekstrarfélagi ber að greina fjárfestum frá þeirri áhættu sem felst í fjárfestingu í verðbréfasjóði áður en viðskipti eiga sér stað.