Þrír flokkar viðskiptavina

Reglur Summu Rekstrarfélags hf. um flokkun viðskiptavina eru settar í samræmi við 1. mgr. 21. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Þar kemur fram að fjármálafyrirtæki skuli setja sér verklagsreglur um flokkun viðskiptavina. Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti geta viðskiptavinir fallið í þrjá mismunandi flokka; almennur fjárfestir, fagfjárfestir og viðurkenndur gagnaðili.

Flokkun viðskiptavina er mikilvæg af þeim sökum að vernd sú sem skylt er að veita viðskiptavinum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti er mismunandi eftir því hvernig viðskiptavinirnir eru flokkaðir. Almennir fjárfestar njóta mestrar verndar samkvæmt lögum en fagfjárfestar og viðurkenndir gagnaðilar njóta minni verndar þar sem gert er ráð fyrir því að þeir búi yfir meiri þekkingu og reynslu en almennir fjárfestar. Hér er helstu eiginleikum flokkunarinnar lýst en reglur Summu Rekstrarfélags hf. eru mun ítarlegri.

Viðurkenndir gagnaðilar

Viðurkenndir gagnaðilar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eru þeir aðilar sem falla undir a, b eða c liði skilgreiningarinnar á fagfjárfestum í 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Í því felst að eftirfarandi aðilar eru viðurkenndir gagnaðilar í skilningi laganna:

 1. Lögaðilar, hér á landi eða erlendis, sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. fjármálafyrirtæki og fyrirtæki tengd fjármálasviði, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna, staðbundnir aðilar og aðrir stofnanafjárfestar.
 2. Stór fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
  1. heildartala efnahagsreiknings er jafnvirði 20 milljón EUR. eða hærri,
  2. hrein ársvelta er jafnvirði 40 milljón EUR eða meiri,
  3. eigið fé er jafnvirði 2 milljóna EUR eða meira.
 3. Ríkisstjórnir og sveitarstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyris-sjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.

Ákveðnir fagfjárfestar, þ.e. þeir sem teljast fagfjárfestar á grundvelli a til c liðar 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna, eru einnig viðurkenndir gagnaðilar og eru því í raun í tveimur flokkum.  Um slíka aðila gilda þó eingöngu reglur um viðurkennda gagnaðila.

Fagfjárfestar

Í lögum um verðbréfaviðskipti er gert ráð fyrir því að hægt sé að komast í hóp fagfjárfesta með tvennum hætti:

 1. Í fyrsta lagi telst aðili sjálfkrafa fagfjárfestir ef hann uppfyllir einhver þeirra skilyrða sem talin eru upp í a.- e. stafliðum 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna.
 2. Í öðru lagi telst aðili fagfjárfestir ef hann óskar eftir því samkvæmt 24. gr. laganna og Summa Rekstrarfélag hf. metur sérfræðikunnáttu hans, reynslu og þekkingu svo að nægileg vissa sé fyrir því að viðkomandi geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst. Auk þess verður viðskiptavinur að uppfylla að minnsta kosti tvö þeirra skilyrða sem talin eru upp í a.-c. lið 24. gr. laganna en þau eru:
  1. að hafa átt umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali að minnsta kosti tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi;
  2. verðgildi verðbréfaeignar fjárfestis nemi meira en jafnvirði 2 millj. EUR, eða;
  3. að fjárfestir gegni eða hafi gegnt í að minnsta kosti eitt ár starfi á fjármálamarkaði sem krefst sérþekkingar á fjárfestingum í verðbréfum.

Vakin er sérstök athygli á því að mat við flokkun fagfjárfesta eftir beiðni er samkvæmt ofangreindu tvíþætt, það er fyrst þarf að fara fram sjálfstætt mat á því hvort að sérfræðikunnátta reynsla og þekking sé nægjanleg og að því loknu þarf að meta hvort að viðskiptavinurinn uppfylli a.m.k. tvö þeirra skilyrða sem talin eru upp að ofan.

Almennir fjárfestar

Almennir fjárfestar eru þeir sem ekki teljast fagfjárfestar (hvort sem þeir fagfjárfestar teljast einnig viðurkenndir gagnaðilar eða ekki).

Framkvæmd

Framkvæmd flokkunar viðskiptavina er unnin af starfsmönnum félagsins. Starfsmenn félagsins gefa nánari upplýsingar um framkvæmd flokkunar viðskiptavina en einnig er hægt að leita upplýsinga hjá summa[hjá]summa.is.