Reglur Summu Rekstrarfélags hf.

Summa Rekstrarfélag hf. hefur sett sér reglur um mat á hæfi viðskiptavina í þeim tilgangi að auðvelda starfsmönnum félagsins að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þegar kemur að eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og annarri þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Hæfi viðskiptavinar kemur til skoðunar eftir að viðskiptavinur hefur verið flokkaður í samræmi við verklagsreglur um flokkun viðskiptavina sem almennur fjárfestir, fagfjárfestir eða viðurkenndur gagnaðili.

Mat á hæfi

Með mati á hæfi (e. suitability test) er átt við þá skyldu sem lögð er á fjármálafyrirtæki í 15. gr. laga um verðbréfaviðskipti þegar veitt er þjónusta sem felst í fjárfestingarráðgjöf eða eignastýringu. Þar er sú skylda lögð á fjármálafyrirtæki að „afla sér upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar á sviði viðkomandi tegundar verðbréfaviðskipta, fjárhagsstöðu hans og markmið með fyrirhugaðri fjárfestingu, þannig að því sé kleift að veita viðskiptavininum ráðleggingar um hvaða verðbréfaviðskipti hæfi honum“. Sé þessara upplýsinga ekki aflað er fjármálafyrirtækinu óheimilt að láta viðskiptavinum í té ráðleggingar um fjárfestingarráðgjöf og eignastýringu.

Skyldur Summu Rekstrarfélags hf. eru mismiklar eftir því hvort viðskiptavinur er viðurkenndur gagnaðili, fagfjárfestir eða almennur fjárfestir.

Framkvæmd

Framkvæmd hæfismats viðskiptavina er unnin af starfsmönnum félagsins. Í þessu skyni eru spurningalistar lagðir fyrir viðskiptavini og öðrum gögnum safnað. Gögnin eru yfirfarin og hæfi viðskiptavinar með hliðsjón af fyrirhuguðum viðskiptum metin. Öll gögn og niðurstöður eru síðan geymd á þann hátt og í þann tíma sem viðhlítandi lög og reglur kveða á um.

Starfsmenn félagsins gefa nánari upplýsingar um framkvæmd hæfismatsins en einnig er hægt að leita upplýsinga hjá summa[hjá]summa.is.